Ingibjörg Pálsdóttir Eggerz
Ingibjörg Pálsdóttir Eggerz fæddist í Búðardal 18. júlí 1916. Foreldrar hennar voru Páll Ólafur Ólafsson frá Hjarðarholti í Dölum og Hildur Stefánsdóttir frá Auðkúlu í Austur-Húnavatnssýslu. Þau eignuðust fimm börn, Stefán tannlækni, Ingibjörgu listmálara, Þorbjörgu Guðrúnu listakonu, Ólöfu myndhöggvara og Jens Ólaf Pál, mannfræðing og prófessor, sem öll ólust upp í Reykjavík. Faðir hennar var umsvifamikill útgerðarmaður, sem unni tónlist, samdi lög og orti ljóð. Hildur var listelsk og listfeng. Bæði komu þau frá landskunnum prestssetrum, Hjarðarholti og Auðkúlu. Heimilið í Reykjavík var fyrst á Hólavöllum og síðar í nýbyggingu á Sólvallagötu 4. Páll Ólafsson, faðir Ingibjargar, var einn þeirra atorkumanna sem kreppan á fjórða áratugnum lék illa og lítt gátu sætt sig við þann hag, sem þeim var búinn hér á landi á þeim tíma. Árið 1936 seldi hann hús sitt og fluttist með fjölskyldu sína til Danmerkur og síðar Færeyja. Þar gerðist hann atkvæðamikill í útgerð og kaupsýslu og var jafnframt fyrsti ræðismaður Íslands í Færeyjum.