Dr. Solveig Eggerz
Sigurður Eggerz, sjálfstæðið, hjartfólgnast allra mála
Klukkan var 12 á hádegi, 1. desember 1918. Veðrið óvenju fallegt. Spanska veikin geisaði. Samt safnaðist mannfjöldi við Stjórnarráðið, því þetta var stór dagur fyrir sjálfstæði Íslands. Sigurðar Eggerz, fjármálaráðherra, stóð á tröppum stjórnarráðsins ásamt fleiri ráðherrum. Jón Magnússon, forsætisráðherra, var erlendis svo það féll í hlut Sigurðar að tilkynna sjálfstæði íslenska ríkisins. Karlmenn tóku ofan á meðan lúðraflokkur Reynis Gíslasonar lék Eldgamla Ísafold.
“Í dag eru tímamót. í dag byrjar ný saga, saga hins viðurkennda íslenska ríkis,” sagði Sigurður. Íslendingar fagna fengnu fullveldi stóð í Morgunblaðinu. Sambandslögin voru gengin í gildi, og gömlu stöðulögin frá 1871 fallin úr gildi. Samkvæmt sambandslögunum var Ísland viðurkennt sem sjálfstætt ríki.
En margir sem undirskrifuðu sambandslagasamninginn litu á hann sem áfanga í sjálfstæðisbaráttu íslendinga en ekki endalokin. Takmarkið var Ísland sem lýðveldi, sem yrði fyrst náð þegar samningurinn rynni út að 25 árum liðnum. Sigurður sagðist hafa undirskrifað sambandslögin bara vegna uppsagnarákvæðisins. Hann leit á sambandslagasamningin sem millistig á leiðinni til fulls sjálfstæðis.
Samkvæmt nýju lögunum yrði Ísland undir danska konginum eða “í sambandi við“ kónginn í næstu 25 ár. Danmörk sæi áfram um utanríkismál Íslands. Möguleiki væri á sambandssliti og lýðveldisstofnun ef íslendingar óskuðu þess að 25 árum liðnum. Sigurður treysti því ekki að uppsögn samningsins gengi sjálfkrafa að 25 árum liðnum. Hann virðist hafa óttast það þjóðin yrði ekki eins instillt á sjálfstæði árið 1943 eins og hún hafði verið 1918. Þess vegna árið 1928, tiu árum seinna og tólf árum áður en sambandslögin kynnu að renna út, gerði hann róttækar ráðstafanir til þess að fullvissa það að uppsögninni yrði framfylgt. Alla ævi var sjálfstæðismálið honum efst í huga. Í dánargrein, 17. nóvember, 1945, kallaði Morgunblaðið sjálfstæðið Sigurði “hjartfólgnast allra mála.”
Sigurður var glaðlyndur og vinsæll maður. Mannblendinn og mikið fyrir að ræða málin, stundaði hann kaffihús. Hann var þekktur fyrir það að lyfta fótunum hátt þegar hann gekk og fyrir að tala um sjálfstæði. Þá flaug þessi vísa um bæinn—
Það má segja, að einatt er á kaffihúsum kátt
kelerí og þesskonar í prýðilegu standi.
Og meðan Siggi Eggerz tekur sínar fætur hátt
er sjálfstæðinu óhætt hér í landi.
Fyrirvari
En ákafi Sigurðar um sjálfstæði vakti eftirtekt löngu fyrir 1928. Júní 1914 baðst Hannes Hafstein lausnar frá ráðherradómi. Þa tilnefndi Alþingi Sigurð Eggerz sem forsætisráðherra. Stuttu seinna samþykktu báðar deildir þings þann “fyrirvara” varðandi stjórnarskárfrumvarp að “uppburður sérmála Íslands fyrir konungi í ríkisráði Dana verði íslenskt sérmál.” Seinna um árið fór Sigurður til Kaupmannahafnar og lagði fyrir konung til staðfestingar stjórnarskrárfrumvarp Alþingis. Þegar konungur neitaði að staðfesta þessa stjórnarskrárbreytingu, beiddist Sigurður lausnar frá embætti. Uppsögn Sigurðar var talin vísbending um það að íslendingum var alvara um fullt sjálfstæði frá Dönum. Í minningargrein um Sigurð, 17. nóvember 1945, skrifaði Morgunblaðið um þennan atburð—
“Mesta aðdáun meðal almennings hlaut hann 1915 þegar hann lagði ráðherrastöðu sína að veði, er hann fekk ekki framgengt í ríkisráði Dana þeirri kröfu varðandi rjettindi Íslands, sem Alþingi hafði gert og hann sjálfur hafði óbifandi sannfæringu fyrir, að væri rjettmæt og sjálfsögð.“
Fyrirspurn
En þegar kaffihúsgestir og blaðamenn gerðu grín að Sigurði 1928 fyrir ákafa hans um sjálfstæði, þá gaf hann til kynna ótta sinn um að fullt sjálfstæði kynni að renna Íslendingum úr greipunum. Hann sat einn á þingi sem fulltrúi Frjálslynda flokksins þegar hann gerði eftirfarandi fyrirspurn—
“Vill ríkisstjórnin vinna að því að sambandslagasamningnum verði sagt upp eins fljótt og lög standa til, og í því sambandi íhuga eða láta íhuga sem fyrst á hvern hátt utanríkismálum vorum verði komið fyrir bæði sem haganlegast og tryggilegast, er vér tökum þau að fullu í vorar hendur.”
Sigurður, sem hafði síðan á stúdentsárunum verið aðdáandi Danmerkur og danskrar menningar, benti á nýjar hugsjónir sem voru að breiðast út í Danmörku. Hann vitnaði í bók sem öllum þingmönnum hafði verið gefin. Hún var eftir Marinus Larsen Yde, konsúl, með heitinu Et Större Havfiskeri—Et Större Danmark. Þeir í Danmörku sem studdu hugtakið Et Större Danmark voru kallaðir Stór Danir. Hugsjón Yde var að þenja út Danmörk norður yfir Atlants nýlendunum—Færeyjar, Ísland, og Grænland og hefja mikla fiskveiðasókn norður í höfum. Í bókinni vottaði fyrir danskri heimsveldahyggju, þar sem að hann sagði að Danir væru vanir því að skoða höfin milli Færeyja, Íslands, og Grænlands sem heimahöf.
Það var ekki bara þessi hugsjón Yde sem vakti áhyggjur hjá Sigurði. Það var líka sá möguleiki að aðstæður í heiminum og einnig á Íslandi kynnu að vera svo breyttar að 12 árum liðnum að sambandsslitin kynnu að fara forgörðum. Enda var heimsstyrjoldin síðari í fullum gangi þegar uppsagnarárið 1943 rann upp. Og Danir í mjög veikri stöðu, þar sem þeir voru hernumdir af þjóðverjum.
Fulltrúar allra flokkana tóku jákvætt undir fyrirspurn Sigurðar og samþykktu það að segja upp sambandslögunum 1943. Alþingi lýsti svo yfir 1928 að Íslendingar stefndu að fullum skilnaði við Danmörk. Seinna sögðu sumir Danir að Íslendingar hefðu notfært sér veika stöðu Dana til að framkvæma sambandsslit. En með því að hvetja Alþingi til að staðfesta afstöðu Íslands löngu fyrir sambandsslitsárið afstýrði Sigurður öllum vafa um markmið Íslendinga varðandi sjálfstæðisbaráttuna. Sumum fannst fyrirspurnin óþörf, þvi reiknað var með því að Ísland kysi sambandsslit að samningnum útrunnin. En svo kom stríðið og aðstæðurnar breyttust. Alexander Jóhannesson skrifaði í Morgunblaðinu um áhrif yfirlýsingarinnar á þessum erfiðu tímum.
“Sigurður var vökumaður þjóðarinnar og þessar yfirlýsingar Alþingis bundu marga þingmenn, sem hefðu annars ef til vill hopað af hólmi á árunum 1942 og 1943 þegar mestur ágreiningur varð um það, hvort bíða ætti, unz stríðinu lyktaði til þess að geta talað við konunginn, en erindið gat þó aldrei verið annað en það að segja honum, að Íslendingar ætluðu að skilja.”
Vísir birti grein 18. júní 1969 um áhrif fyrirspurnarinnar. Hét hún “Bergmál úr hljóðaklettum“. Hún hljóðaði svo—
“Fyrirspurn Sigurðar ásamt svari forsætisráðherra og umræðum sem á eftir fylgdu eru óvéfengjanlegt sönnunargagn fyrir því að stefna íslendinga í skilnaðarmálinu var hrein og bein, þar kom aldrei neitt annað til greina en uppsögn að samningstíma liðnum og því var það alveg ástæðulaust hjá dönskum mönnum að láta sér það koma á óvart.”
Frá maí 1940 var Ísland hernumið fyrst af Bretum svo Bandaríkjamönnum. Þegar að sambandsslitum kom, bað stjórn hernámsliðsins um að frestað yrði um eitt ár formleg slit við danska kónginn. En Alþingi hafði tekið í sínar hendur utanríkismál stuttu eftir hernám Danmerkur 9. apríl 1940. Þegar Ísland gerðist lýðveldi 17. júní 1944, var haft eftir Sigurði að þetta var hamingjusamasti dagur ævi sinnar. Hann lést rúmlega ári síðan, 16. nóvember 1945.
Dr. Sólveig Eggerz